top of page

Huglægar skekkjur

Huglægar skekkjur (e. cognitive Biases)

Einföldunarreglur (e. heuristics) eru viðurkennd huglæg verkfæri sem hjálpa til við að draga ályktanir út frá fyrri reynslu. Þær eru gjarnan notaðar þegar leysa þarf vandamál eða að draga lærdóm af reynslu sem síðar er nýttur. Markaðsrannsóknir sem byggja á þverfaglegum stjónarhornum s.s. atferlishagfræði og hagrænni sálfræði hafa skipt sköpum í markaðssetningu á vörum og þjónustu þar sem þær hafa aukið skilning á því hvað hefur áhrif á val og ákvarðanatöku einstaklinga.

 

Rannsóknir hafa t.d. leitt í ljós að tölulegar upplýsingar ótengdar vöru eða þjónustu geta haft þar áhrif. Það hefur sýnt sig að ef neytandi verður fyrir áhrifum af hárri tölu áður en kaup fara fram, þá er hann tilbúinn að borga hærra verð og sama á við ef hann verður fyrir áhrifum af lágri tölu, þá er hann tilbúin til að borga lægra verð. Slík áhrif kallast festihrif (e. anchoring) en þau eru ein af mörgum einföldunarreglum sem fólk styðst við eða verður fyrir áhrifum af þegar það stendur frammi fyrir vali eða ákvarðanatöku. Þau virka sem kveikja (e. priming) á hugann með þeim hætti að hann grípur til upplýsinga sem settar hafa verið fram og notar þær til að hjálpa til við ákvörðunartökuna. Helstu einkenni festihrifa er að þau hafa merkingarlegt mikilvægi fyrir einstaklinga en þeir gera sér yfirleitt ekki grein fyrir því að þeir séu undir áhrifum þeirra.

Þessar einföldunarreglur geta gagnast okkur vel í ýmsum aðstæðum s.s. þegar við þurfum að leysa aðkallandi vandamál eða taka ákvörðun undir álagien þær geta líka blekkt okkur og skapað huglægar skekkjur ef við erum ekki meðvituð um tilvist þeirra. Hér eru nokkur dæmi um hvernig einföldunarreglur og huglægar skekkjur hafa ómeðvituð áhrif  á viðhorf og mat á framlagi mismunandi einstaklinga.

Versa vottun býður upp á námskeið um huglægar skekkjur og rökvillur sem gjarnan koma upp þegar við tökum ákvarðanir undir álagi.

Skoðað er m.a. hvernig einföldunarreglur, sem gjarnan gagnast okkur vel í leik og starfi, geta breyst í huglægar skekkjur sem svo lita ómeðvitað viðhorf okkar og ákvarðanatöku. Námskeiðinu er ætlað að auka hæfni og getu stjórnenda sem koma að starfrækslu stjórnunarkerfanna eða geta haft áhrif á getu þeirr til að ná fram þeim markmiðum sem þeim er ætlað að raungera. 

Áætlunarvillan:

Trúlega kannast allir við áætlunarvilluna (e. planning fallacy) en hún felst í því að við gerum ávallt ráð fyrir bestu mögulegu útkomu þegar við erum að áætla tíma og fjármagn fyrir verkefni, hvort sem um er að ræða lítil verkefni sem koma upp í daglegu lífi eins og að mála eitt herbergi eða umfangsmikil fagleg verkefni eins og bygging óperuhúss. Bygging óperuhússins í Sydney er gjarnan nefnd sem dæmi um slíka villu en byggingartími þess fór tíu árum fram úr áætluðum tíma og kostnaður fór úr $7 milljónum í $102 milljónir. Daniel Khaneman (Thinking fast eand Slow, 2012) segir væntinga skekkju (e. Optimism fallacy) valda þessari villu.​

Útvistun heimilisstarfa:

Færst hefur í vöxt að heimilisstörf, sem flokkuð eru sem karlastörf (s.s. bílaviðhald og viðgerðir), sé úttvistað á meðan kvennastörf (s.s. þvottur, eldamennska og þrif) er ekki útvistað að eins miklu leiti. Umönnun barna er það eina sem hefur markvisst verið útvistað enda er hún grundvallar forsenda þess að konur komist út að vinna, allt annað getur beðið þar til vinnudegi lýkur. Þarna er mögulega huglæg skekkja sem veldur þvi að horft er á dæmigerð kvennastörf á atvinnumarkaði sem ákveðna framlengingu á móðurhlutverkinu (kennsla á leikskólastigi, þvottahús, matreiðsla, umönnun o.fl.) og þar sem móðurhlutverkið er launalaust starf, getur það útskýrt ástæðu þess að viðhorf til þeirra starfa stuðli að lágum launum. Slík skekkja gæti verið einn af þeim þáttum sem stýrir viðhorfum á virði starfa á grundvelli undirliggjandi viðhorfa um hlutverk kynjanna á heimilinu og utan þess.

 

Skekkjan birtist t.d. með þeim hætti að dæmigerð karlastörf og kvennastörf, sem eru í raun jafnverðmæt, eru ekki metin jöfn heldur fær framlag karla meira vægi. Dæmi um slíkt væri að starfsmaður á plani fær borgað álag fyrir að vinna úti í hita/kulda og jafnvel skítugu umhverfi  á meðan starfsmaður í þvottahúsi fær ekki greitt álag fyrir sömu þætti þó viðkomamdi vinni við miklar hitagufur og meðhöndli reglulega skítugan og illa lyktandi þvott.

bottom of page